Monday, March 7, 2011

Buried

Það var bara venjulegur skóladagur og við Villi vorum að læra á Íþöku. (veit rosalega duglegir :D) Svo fór ég út í símann og upp úr þurru komu tvær konur að mér og réttu mér 2 frímiða fyrir 2 á forsýningu stórmyndarinnar Buried. Við fellarnir skelltum okkur því á double-date sem reyndist svo vera triple-date því Jón kom með okkur. Þegar við mættum voru nær eingöngu MR-ingar í salnum, nokkrir MH-ingar og svo einhverjar hræður úr Versló. Það er því nokkuð ljóst að Bíó Paradís er að vekja áhuga ungs fólks á því starfi sem þau eru að gera en Bíó Paradís sýnir til að mynda mun fleiri myndir á ári en nokkurt annað bíó á Íslandi. Mér finnst þetta sniðugt verkefni hjá þeim því hin bíóin sýna nær eingöngu týpískar Hollywood myndir. Ja nema Háskólabíó þeir eru með einhverjar gamlar myndir líka. Já og annað sem var mjög fínt við sýninguna var það að það var ekkert hlé á myndinni.

Já eins og myndin til hliðar gefur til kynna þá er aðalleikari myndarinnar Ryan Reynolds(kærustu minnar til mikillar hamingju) og í raun á skjánum allar 95 mínúturnar. Paul Conroy er Bandaríkjamaður sem keyrir vörubíl í Írak. Ráðist er á bílalest þeirra og allir drepnir nema Paul. Hann vaknar 6 fet undir jörðinni einhversstaðar í Írak í líkkistu með kveikjara og síma. Það vill svo til að síminn er stilltur á írösnku en hann gerir auðvitað það sem allir myndu gera og reynir að ná sambandi við sína nánustu. Að svo búnu hringir hann til Bandaríkjanna í hinar ýmsu stofnanir. Einhverja gísladeild, FBI, fyrirtækið sitt og fleira. Mér fannst þetta í raun bráð fyndin mynd því hún er svo sterk ádeila á kerfið í Bandaríkjunum. Það er sama hvert hann hringir þá fær hann alltaf sömu asnalegu spurningarnar, settur á bið og talar svo við næsta yfirmann.
Leikstjóri myndarinnar er Rodrigo Cortés, og finnst mér hún vel leikstýrð.Þetta er ekki dæmigerð Hollywood mynd með sprengingum, ástarsenum og allt það, Nei! þetta er maður fastur í líkkistu. Samt er hún mjög góð.
Það er ekki hægt skrifa mikið meira um mynd sem gerist í kassa án þess að spoila einhverju. Kostirnir við myndina eru að hún er nokkuð frumleg, hefur kostað lítið í framleiðslu, flottur leikur hjá Reynolds(hefði ekki getað verið fastur í svona kassa tímunum saman) og vel gert handrit. Spennan er lengi að byggjast upp en verður hreint út sagt mögnuð í lokin.
 
Annað video sem ég rakst á við leitina að trailernum :)

1 comment: