Tuesday, April 5, 2011

Kurteist fólk

Ég fór á Kurteist fólk í bíó rétt áðan og það stefndi allt í að ég færi í fyrsta skiptið 1 í bíó. Þannig er mál með vexti að ég komst ekki í hópferðina á sunnudaginn. Ég ætlaði þá á myndina á mánudeginum í álfabakka og fór í Breiðholtið en þá er hún ekki sýnd í Sambíóunum. Það var því ekkert annað í stöðunni en að fara á myndina áðan kl 10. Ég sat einn með sjálfum mér að horfa á auglýsingar þegar allt í einu kærastan mín birtist við hliðina á mér, mér til mikillar ánægju og yndisauka. Og á meðan ég man Djöfull er fokkin dýrt að fara á íslenska mynd í bíó. 1400 kr fyrir svona mynd og það á þriðjudegi!
Myndin fjallar um Lárus Skjaldarson. Hann er verkfræðingur í Reykjavík sem er nýlega rekinn úr starfi. Yfirmaður Lárusar er að ríða konunni hans og er meiri faðir barnanna hans en Lárus sjálfur. Faðir hans liggur fársjúkur á sjúkrahúsi og mamma hans er drykkfelld. Persónulíf Lalla er ansi fokked opp og hann fer því til Búðardals að endurbyggja sláturhús sem faðir hans hafði unnið að. Þar flækist hann inn í þorpspólitíkina og veldur usla. Sveitarstjórinn Markell er með Lárusi í ráðum varðandi sláturhúsið. Annar þorpsbúi er Hrafnkell, hann situr í sveitastjórn og er yfir mjólkurbúi sveitarinnar. Hrafnkell og Markell eiga það sameiginlegt að fá allt sem þeir vilja og gera allan fjandann sem þeim sýnist. Flokkspólitíkin er svikul og lævís og greyi Lárus flækist inn í þetta allt saman.
Lárus og Hrafnkell á góðum degi
Leikararnir eru ekki af verri endanum en allir helstu leikarar Íslands eru hér saman komnir í einni mynd. Stefán Karl fer með aðalhlutverkið en einnig má nefna Hilmi Snæ, Halldóru Geirharðs, Flosa Ólafs, Eggert Þorleifsson, Ágústu Evu og þokkadísina Ragnhildi Steinunni. Leikstjóri myndarinnar er Ólafur Jóhannesson en hann skrifaði einnig handritið ásamt Hrafnkeli Stefánssyni. Mér fannst myndatakan skemmtileg(svona þegar ég tók eftir því).Myndin skapar ansi skemmtilega íslenska sveitastemmingu þar sem allir í sveitinni eru búnir að ríða öllum. Ég fékk svona á tilfinningunni að myndin snerist ekki um neitt. Að eini tilgangur myndarinnar væri að kynna Búðardal. Ég meina Sauðárkrókur fékk Rokland, af hverju fær Búðardalur þá enga mynd? Svarið kom í lokin, rétt fyrir kredit listann. Þá birtist skáletrað fyrir Búðardal. Hah ég hélt ég yrði ekki eldri! Ég bjóst við mjög góðri grínmynd eftir að hafa horft á trailerinn en ég var heldur betur illa svikinn. Kannski var það hversu seint ég fór á myndina eða eitthvað en ég hló frekar lítið, eiginlega bara ekki neitt, og salurinn ekki heldur, já góð grínmynd :/ Hrafnkell er ekki ósvipaður þarna ríka gæjanum í Roklandi, gæti verið einhverskonar ádeila á 2007 fílinginn. Maður sem á sand af seðlum, gerir það sem honum sýnist og kemst upp með það.
Allt í allt var þetta ágætis mynd svo sem. Mjög íslensk í alla staði. Fær enga topp einkunn af minni hálfu.

Ég þakka hér með fyrir mig og vona að lesendur mínir hafi notið þess að lesa bloggin eins mikið og ég naut þess að skrifa þau :) Veriði heil og sæl

Sunday, April 3, 2011

The Dark Knight

Bræður mínir keyptu þessa ágætu mynd á föstudaginn og eftir svekkjandi tap gegn Kvennó í Gettu Betur þá hafði ég ekkert betra að gera en að horfa með. Þess má til gamans geta án alls biturleika að Kvennó fékk rétt stig fyrir að svara Akranes við spurningunni um hvaða sveitarfélag sé fremst í stafrófinu, það kemur hins vegar á daginn að til er sveitarfélag sem ber heitið Akrahreppur! Jæja hvað með það. Ég man vel eftir því þegar The Dark Knight kom í bíó sumarið 2008. Hún fór beint á toppinn yfir 250 bestu myndir á Imdb og allir voru á einu máli um það að þetta væri besta mynd sem þeir hefðu séð. Ég var frekar seinn til að fara á hana í bíó svo ég var búinn að heyra þvílíkt mikið um ágæti hennar. Fráfall leikarans Heath Ledger jók einnig umfjöllun um myndina en hann fór með hlutverk Jókersins. Mér fannst myndin mjög góð en hún er aldrei besta mynd í heiminum, enda er hún nú í 10 sæti á imdb með 8.8 í einkunn. The Dark Knight er seinni mynd Christopher Nolan um Leðurblökumanninn en sú fyrri heitir Batman Begins. Christian Bale leikur Batman í þeim báðum og að mínu mati eru þetta bestu batman myndirnar. Myndin þar sem Batman er leikinn af George Clooney og Arnold Schwarzenegger er Mr.Freeze er mögulega versta mynd sem ég hef séð. The Dark Knight fjallar um Bruce Wayne og ævintýri hans sem Batman í Gotham borg. Að þessu sinni er mikill uppgangur í borginni vegna saksóknarans Harvey Dent. Harvey reynir sem best hann getur að uppræta spillingu meðal lögreglunnar og koma mafíuforingjunum á bakvið lás og slá. Á sama tíma býðst Jókerinn til að losa mafíuna við Leðurblökumanninn. Mafían samþykkir og allt fer í háa loft í Gotham borg þar sem hinn sturlaði Jóker er aðal illmennið.
Heath Ledger leikur Jókerinn en einhvers staðar heyrði ég að Ledger hefði lokað sig af einn í einhverjum sumarbústað og æft sig fyrir hlutverkið og verið ja hálf geðveikur. Sú vinna var vel þess virði því hann er hreint stórkostlegur í myndinni. Það gerðist svo þann 22. janúar 2010 að Ledger lést sökum pilluáts og er það mikill missir fyrir kvikmyndaaðdáendur hans. Ledger fékk óskarinn sem besti aukaleikari fyrir leik sinn í myndinni. Þó svo að hann fari á kostum í myndinni þá eru aðrir góðir leikarar í henni einnig og ber þar helst að nefna Christian Bale, Gary Oldman og Morgan Freeman. Ég hef aðeins eitt að setja út á leik Christian sem Batman og það er röddin hans. Þegar hann leikur Bruce Wayne er allt í goodie en svo þegar hann setur á sig grímuna þá er eins og hann hafi reykt einhverja 50 sígarettupakka. Kannski á þetta að vera eitthvað hart eða svoleiðis en á mig virkar þetta virkilega kjánalegt. Það er líka eins og hann geti ekki hreyft munninn á sér þegar hann er með grímuna.
Christopher Nolan leikstýrði, framleiddi og skrifaði myndina. Helst ber að nefna að kostnaður við myndina var 185 milljónir bandaríkjadala en myndin sló svoleiðis rækilega í gegn á heimsvísu að hún hefur tekið inn yfir 1000 milljónir dollara. Tæknibrellurnar í myndinni heilluðu mig og má þar nefna græjur Batmans og andlitið á Two Face. Skemmtilegt er að bera saman The Batcycle úr Batman(1966) og The Batpod.
Hans Zimmer sá um tónlistina í myndinni en hún hefur hlotið fjöldann allan af viðurkenningum, og vann óskarinn fyrir Sound editing. Á næsta ári kemur út myndin The Dark Knight Rises og er ég viss um að allir Batman aðdáendur bíði spenntir eftir henni.
 
Videoið fyrir neðan sýnir ansi vel hvað ég á við með asnalegri rödd Batman og hvernig Christian Bale getur ekki hreyft á sér munninn með grímuna á sér!

Friday, April 1, 2011

Kvikmyndagerð 2010-11

Í lok fimmta bekkjar þegar velja átti valfög fyrir 6. bekk kom bara eitt valfag til greina hjá mér. Valið hafði verið mjög vinsælt í gegnum árin og ég hafði heyrt góða hluti um fagið. Ég var því með þvílíkar væntingar á haustönn og hélt einhvern veginn að við myndum bara vinna í gerð einhverskonar sketcha. Ástæðan fyrir því var sú að allir þeir sem voru í bingó eða komu að gerð sketcha fyrir MR völdu kvikmyndagerð. Ég og Villi vorum alltaf að spá hvernig sketcha við ættum að gera á komandi skólaári og vorum með fullt af ágætum hugmyndum.

Kvikmyndasaga:
Strax í upphafi haustannar kom kvikmyndasagan eins og blaut tuska í andlitið á mér! Það var í raun barnaleg hugsun af minni hálfu að halda að kvikmyndagerðar áfanginn væri algjörlega án kvikmyndasögu. Ég get ekki sagt að ég sé mikill aðdáandi mánu- og föstudagstímanna en þeir eru jafnframt nauðsynlegir. Ég átti mjög erfitt með að fylgjast með í tímum fyrir jól því mér fannst sú saga drepleiðinleg og ég hafði engann áhuga á henni. Sagan eftir jól leggst hins vegar betur í mig og fannst mér hún mun áhugaverðari.

Tímar á hátíðarsal:
 Miðvikudagstímarnir eru seint á daginn en ég var furðu fljótur að venjast því fyrirkomulagi að vera til 5 í skólanum á mið. Auk þess sem við vorum oft búin fyrr. Varðandi myndirnar sem voru sýndar þá fannst mér myndirnar fyrir jól alveg óbærilegar. The General og Charlie Chaplin klippurnar voru samt í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég hreinlega dýrka þennan einfalda húmor. Myndirnar eru skyljanlega sýndar í samræmi við söguna og ég átti mjög erfitt með að halda mér vakandi yfir þeim. Myndirnar eftir jól eru á hinn bóginn frábærar. Mér finnst frábært hvernig valfagið hefur kynnt fyrir mér frábærar myndir, sem ég hafði aldrei heyrt um og hefði líklegast aldrei séð. Þar ber helst að nefna Man Bites Dog, Oldboy og The Investigator. Þær eru með skemmtilegri myndum sem ég hef séð og það hefði aldrei hvarflað að mér t.d að leigja þær.

Verklegi hlutinn:
Mér hefur fundist virkilega gaman af verklega hluta námskeiðisins. Ég velti því oft fyrir mér hvernig stendur á þvi að þessi áfangi sé með svona mikinn budget og frábærar græjur þegar að Haukur frænka fær tildæmis fótbolta úr Hagkaup =). Ég er mjög ánægður með allan búnaðinn og finnst frekar leiðinlegt að hafa ekki getað notað hann meira. Ég hefði viljað haft meira verklegt, gert tónlistarvideo og sketcha. Maraþonmyndin var virkilega skemmtileg, heimildarmyndin var skemmtileg í gerð en ekki kannski mikil heimildarmynd hjá okkur, og svo er lokaverkefnið mjög skemmtilegt. Klippiverkefnið var ansi sniðugt, kenndi manni á forritið.

Bloggið:
Bloggkerfið er ágætis hugmynd fyrir sig. Nú horfi ég á myndir með hliðsjón af því hvernig ég eigi að blogga um hana. Mér finnst 70 bloggstig vera of mikið. Sérstaklega þar sem að ég fæ oftast í kringum 5 stig fyrir færslu. Miðað við tímann sem fer í að gera bloggin (horfa á myndina+eyða 1- 2 klst í að blogga) finnst mér það ekki þess virði. Bloggið er eina heimavinnan í áfanganum en vandamálið er það sama og það hefur verið síðustu ár og það er að það bloggar enginn nema rétt fyrir stúdentsprófin. Ég er sammála Þorbjörgu um stigagjöf á kommentin, það hvetur líka nemendur til að lesa blogg annarra og fá stig um leið. Sem dæmi um það þá hafa Villi og Haddi oft talað um ágæti myndarinnar Schindlers-list, en það var ekki fyrr en ég las bloggið hans Óla um myndina að mig langaði til að horfa á hana. Eitt í viðbót varðandi bloggin og það er að Siggi gæti sett fram skýrt og greinilega hverju hann er að leitast eftir í bloggunum, svo við höfum eitthvað til að miða við. Þá skýrist líka stigagjöfin á bloggin, hún hefur virkað svolítið á mig eins og huglægt mat kennarans á blogginu frekar en að það sé litið á hvað komi fram o.fl.

Hópferðir í bíó:
Að mínu mati þá lærir maður mest í þessum áfanga með því að tala við leikstjórana. Það er frábært tækifæri og virkilega skemmtilegt að ræða myndina og heyra hver hugsunin á bakvið hana var. Til að mynda fannst mér Rokland fáránlega leiðinleg og týpísk mynd með óþarfa nekt og veseni en eftir að hafa rætt við Martein þá fannst mér Rokland góð. Brim var samt mun betri mynd en Rokland og var Árni líka opnari heldur en Marteinn. Ég hlakka mikið til að fara á Kurteist fólk, trailerinn lofar góðu. Auk þess verður hópurinn nánari við að hittast utan skóla, fara í bíó og ræða svo myndina með leikstjóranum. Mér fannst líka gaman að heyra skoðanir annarra og pælingar á myndunum, hvernig þær voru frábrugðnar mínum og svör leikstjóranna við þeim.

FDF:
Mér fannst nokkuð áhugavert að læra um svona tökureglur en jafnframt fannst mér æfingin frekar erfið. Þegar við strákarnir gerðum okkar myndir var það ekki hugsað út í þaula og teiknað niður, þess vegna fannst mér erfitt að lesa handritið og teikna skotin strax.

Á heildina litið var áfanginn öðruvísi en ég bjóst við. Ég hefði viljað meira af verklegum hlutum og minna af sögu. Þá hefði líka verið hægt að sjá betri mun á myndunum og hugsanlega bætingu. Þá hefðu hóparnir öðlast betri tök á klippiforritinu og myndavélinni, hægt að prófa sig meira áfram. Það sem kom mér mest á óvart var hve mikil vinna er utan skóla. Þá á ég við bloggið, upptökur, klippingu og fleira. Þegar ég lít til baka yfir veturinn þá er ég sáttur með mína ákvörðun á vali. Þetta hefur verið fræðandi áfangi en umfram allt skemmtilegur.

Tuesday, March 29, 2011

Nikita

Eftir síðustu færslu þá verð ég eiginlega að blogga núna um strákamynd. Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að lesendur voru ánægðir með síðustu færslu en nú vil ég höfða til karlkyns lesenda minna. Þeir sem hlýddu á fyrirlestur okkar Villa um Luc Besson átta sig á því að ég hef nú þegar fjallað stuttlega um þessa mynd. Mér finnst hún hins vegar svo góð að ég hreinlega þarf að fjalla ýtarlegar um hana.
Myndin til hliðar sýnir upprunalegt auglýsingaplakat myndarinnar en hún kom út árið 1990 undir titlinum Nikita. Í Bandaríkjunum bar myndin hins vegar titilinn Le Femme Nikita. Myndin fjallar um unga stúlku sem er langt leidd í fíkniefnum og drepur lögregluþjón í einhverju móki, þegar lögreglan böstar hana við innbrot. Í kjölfarið er hún dæmd til dauða en yfirvöld sjá sér leik í hendi og finna not fyrir hana. Nikita er þjálfuð sem leigumorðingi í þágu ríkisisins. Hún var aðeins 17 ára þegar hún braut af sér og þremur árum seinna hafði hún lokið þjálfun sinni. Þá er henni gert að lifa meðal almúgans og bíða fyrirmæla um næsta skotmark.
Hugmyndin að myndinni er virkilega skemmtileg en svolítið brengluð þar sem ríkið slær verndarhjúp yfir afbrotakonu.
Árið 1993 var gerð bandarísk endurgerð af myndinni sem heitir Point of No Return. Eftir að hafa séð trailerinn að henni þá langar mig bara ekkert að sjá hana, ég hafði lesið einhvers staðar að hún væri ekki jafn góð og Nikita þegar ég vann að fyrirlestrinum en þessi trailer sá til þess að mig langar ekkert að sjá þessa mynd. Nikita var einnig innblástur að annari mynd en hún ber heitið Hei mao eða Black Cat og er Hong Kong mynd frá árinu 1991. Á árunum 1997-2001 voru þættir með Petu Wilson sem hétu La Femme Nikita, alls voru gerðar 5 seríur af þeim þáttum eða 96 þættir. Núna nýlegast eru þættir sem hófu göngu sína 9.september 2010 um Nikita í gerð Warner Bros. Mig minnir að ég hafi séð auglýsingu á stöð 2 um að þessir þættir séu væntanlegir en ég gat ekki neitt um það á síðu stöðvar 2. Það er því greinilegt að upprunaleg mynd Luc Besson hafi slegið rækilega í gegn.
Í upprunalegu myndinni frá árinu 1990 leikur Anne Parilaud Nikita. Anne og Luc voru gift þegar myndin var gerð og eiga þau saman barn.
Jean Reno fer einnig með hlutverk í myndinni en það sem einkennir gjarnan myndir Luc Besson er að þær innihalda Jean Reno, tónlist eftir Eric Serra og intro-in í myndum hans eru eins. Öll einkenni Bessons koma fyrir í Nikita og persónulega finnst mér tónlistin í myndinni frábær, hún hentar virkilega vel við. Ég fann ekkert video af introinu í Nikita þannig ég horfði bara á introið í The Big Blue eftir Besson. Það er alveg eins og byrjunin í Nikita. Nikita telst til Cinema du look stefnunnar. Það er að mikið er spilað út á lookið en minna kannski um söguþráð og frásögn. 
Ég ætla að láta nokkur athyglisverð video fylgja með að neðan.

Þessi trailer fékk mig til að hlæja






Mér fannst nokkuð gaman að sjá hversu mismunandi trailerarnir eru sérstaklega hversu mikill munur er þáttunum. Það eru sirka 10 ár á milli þáttanna og það er vel greinilegur munur á áherslum í auglýsingum. Nýjasti trailerinn er voða flottur og mikið af hasar á meðan gömlu trailerarnir eru voða rólegir og segja meira um söguþráð myndanna/þáttanna.

Monday, March 28, 2011

How to Lose a Guy in 10 Days

Jájá ég veit ég er að blogga um chick flick mynd en ég áttaði mig á því áðan að ég hef ekkert reynt að höfða til kvenaðdáenda minna. Því finnst mér aðeins sanngjarnt að stelpurnar fái eitt blogg um það hvernig skal losa sig við gaur á 10 dögum. Í raun geta stelpur lært heilmargt af þessari mynd, þ.e hvernig þær eiga ekki að haga sér. Hún er einungis með 6.1 í einkunn á imdb en samt hlaut hún þónokkurra vinsælla víðs vegar um heim.
Myndin fjallar um Benjamin Barry og Andie. Andie vinnur hjá Composure og er how to stelpan hjá blaðinu. Hún skrifar greinar um það hvernig skal tala sig út úr hraðasekt, hvernig skal feng sui-a íbúðina þína og margt fleira. Hún er hámenntuð í fjölmiðlafræðum og dreymir um að skrifa um eitthvað sem skiptir máli eins og stjórnmál, heimsfrið og eitthvað því um líkt. Yfirmaður hennar hjá Composure er hins vegar á öðru máli og lofar henni að hún megi skrifa hvað sem er bara ef hún hlýðir sér og skrifi grein um hvernig á að losa sig við gaur á 10 dögum. Hún fer því út á lífið með vinkonum sínum í leit að gaur til að dömpa eftir 10 daga. Þá hittir hún Benjamin Barry.
Benjamin Barry vinnur sem auglýsingafulltrúi og hyggst skipuleggja risa auglýsingaherferð fyrir demantasalann DeLauer. Í fyrirtæki Benjamins vinna Judy Spears og Judy Green en þær vita af verkefni Andie gera veðmál við Benjamin um það hver fær herferð DeLauers. Veðmálið snýst um að Benjamin fái hvaða konu sem er til að verða ástfangna af sér á 10 dögum og mæta með hana á samkomu sem DeLauer heldur. Judy S og Judy G velja Andie sem fórnarlamb Benjamins og telja sig hafa peningana í bankanum.("Money in the Bank").
Myndin fjallar svo á stórskemmtilegan hátt um samband Andie og Benjamin og má með sönnu segja að hvert stúlkubarn verður að sjá þessa stórmynd. Ég hvet allavega þær stúlkur sem lesa bloggið mitt og hafa ekki séð myndina að fara inn á www.smartdvd.is og leigja hana hið snarasta.

Nú eins og sést á fyrstu myndinni fer Kate Hudson með hlutverk Andie og Matthew McConaughey leikur Benjamin Barry. Kate hefur verið tilnefnd til óskarsverðlauna en hún er einna þekktust fyrir leik sinn í þessari mynd og myndunum Bride Wars(2009) og Almost Famous(2000). McConaughey er algjör hjartaknúsari, eins og lesendur mínir eru fullmeðvitaðir um, og er hann þekktastur fyrir leik sinn í Sahara, Failure to lunch og fleiri góðum.
Þau léku svo aftur saman í myndinni Fool's Gold(2008) þar sem hann er ber að ofan og hún á bikiníi alla myndina. Fool's Gold er hálfgerð stæling á Into the Blue með Jessicu Alba og Paul Walker, hún er bara ekkert jafn góð.
How to lose a guy in 10 days er í leikstjórn Donald Petrie en hann gerði Ri$hie Ri$h og Grumpy Old Men. Hann hafði 50 Milljón dollara budget og myndin hefur þénað 177 milljónir. Það er greinilegt að einkunnin á imdb segir ekki alla söguna. Þetta er bara spurning um að höfða til rétta markhópsins. Þeir lesendur sem vilja fræðast meira um þessa mynd geta kynnt sér ýmsan fróðleik á síðunni www.fróðleikurumHTLAGI10D.com þar stendur meðal annars að Gwyneth Palthrow hafi upphaflega átt að leika á móti McConaghey og fleira.

Frábær mynd í alla staði fyrir bæði konur og karla. Þetta er dæmigerð Hollywood mynd og ég vona innilega að allir þeir sem horfa á myndina njóti hennar jafn mikið og ég gerði.

Sunday, March 27, 2011

Lífið

Ég var heima hjá kærustunni minni að líta í gegnum dvd safnið heima hjá henni og allt í einu held ég á Life. Life er frá árinu 1999 og er stjörnumprýdd mynd. Með aðalhlutverkin í myndinni fara Eddie Murphy og Martin Lawrence, auk þess eru Bernie Mac, Anthony Anderson og fleiri þekkt andlit í henni. Ég persónulega þoli ekki Eddie Murphy en þar sem myndin var frekar gömul og hann var betri þegar hann var yngri þá ákvað ég að gefa myndinni séns og lesa aftaná hulstrið. Eftir lesturinn lét ég blekkjast og horfði á myndina.
Það var versta ákvörðun gærdagsins, því myndin var ekkert sérstök og mér fannst þessar 108 mínútur líða eins og heill dagur í skólanum.
Willie Long hefur verið í fangelsi frá því að hann var 13 ára. Willie er sögumaður og er hann að segja tveimur föngum frá ævintýrum Ray Gibsons og Claude Banks. Hann byrjar að segja frá árinu 1932 þegar þeir félagar kynntust fysrt, síðan fylgist áhorfandinn með ýmsum strokutilraunum þeirra í gegnum árin. Ray og Claude eru í camp 8 í einhverju fangelsi í Missisippi. Það sem einkennir camp 8 er að engar girðingar hindra fanga í að strjúka, í stað þess eru verðir með byssur sem skjóta hvern þann sem stígur út fyrir lóðarmörk fangelsins án leyfis.
Ted Demme er leikstjóri myndarinnar, hann hefur meðal annars gert Beuatiful Girls(1996), Blow(2001) og fleiri myndir sem ég kannast bara ekkert við. Eddie leikur Ray Gibson vasaþjóf í New York og Martin er Claude Banks sem vinnur hjá banka í New York. Samband þeirra er ansi skemmtilegt í myndinni en við fáum að fylgjast með tveimur ókunnugum mönnum sem verða bestu vinir einfaldlega því þeir sitja uppi með hvorn annan. Töluvert er um rasisma í myndinni en það er líka samkvæmt sögulegum atburðum.
Á heildina litið er myndin alls ekkert svo slæm málið er bara að ég bjóst við frábærri grínmynd en ég hló voða lítið yfir henni. Two hours of laughter eins og stendur á hulstirnu minn rass, ég lét hulstrið svo sannarlega blekkja mig í þetta skiptið. Anyways hér er trailerinn fyrir áhugasama.

Saturday, March 26, 2011

How to Train Your Dragon 3D

How to train your dragon er teiknimynd sem kom út á árinu 2010. Í helstu bíóhúsum landsins var hún sýnd í 3D. Því miður fór ég ekki á hana í bíó heldur leigði ég hana nýverið með litla bróður mínum. Þið hugsið eflaust: Vá hvað hann er góður bróðir að horfa á teiknimynd með litla bróður sínum! en raunin er önnur, það var ég sem valdi myndina því ég vildi sjá hana! Ég hafði heyrt frá ýmsum aðilum að hún væri glettilega góð og það verður að segjast að hún stóðst mínar væntingar. Myndin er úr smiðju Dreamworks sem hafa undanfarin ár verið með allra bestu teiknimyndirnar
Myndin gerist í litlu þorpi lengst norður í rassgati. Þorpið heitir Berk og er sérstætt að því leytinu til að plágan sem herjar þorpið eru drekar. Flestir íbúar í venjulegum bæ myndu flýja svona aðstæður en íbúar Berk eru blóðþyrstir víkingar og lúta ekki fyrir einhverjum skriðdýrum. Víkingarnir tileinka líf sitt drekaveiðum og allt snýst um að vera sem best hæfur fyrir drekaveiðar. Leiðtogi þorpsins er Stoick the vast og er hann sífellt í leit að heimkynnum drekanna til að losna við þá fyrir fullt og allt. Honum til mikilla ama er sonur hans Hiccup lítill ræfill sem er klunnalegur og engan veginn efni í góðan drekaveiðara. Hiccup þráir ekkert heitar en að fá að vera með í drekaveiðum og fella dreka.

Á einu örlagaríku kvöldi tekst Hiccup að skjóta niður Night Fury með uppfinningu sinni. Drekategundin Night Fury er velkunn þorpsbúum, þeir eru hættulegastir allra drekategunda. Enginn maður hefur drepið Night Fury dreka og væri Hiccup því fyrstur til. En hann getur ómögulega drepið drekann og tekst með þeim vinátta í staðinn. Hiccup nefnir drekann Toothless og saman lenda þeir í ýmsum ævintýrum. Ég vil ekkert spoila þessari frábæru mynd svo þið verðið eiginlega að sjá hana til að vita meira.
Leikarar myndarinnar eru Gerard Butler en hann fer með rödd Stoick the vast. Með hlutverk Hiccups fer Jay Baruchel sem er gæjinn í She's out of my league, Christopher Mintz-Plasse( Red Mist í Kick Ass) leikur Fishlegs og Jonah Hill(Superbad) fer með hlutverk Snotlaut. Eins og nöfnin að ofan gefa til kynna þá er þetta stjörnumprýdd mynd og hafa allir leikarar myndarinnar samþykkt að koma fram í framhaldi myndarinnar. How to Train Your Dragon 2 á að koma í bíó 20. júní 2014.
Ýmiss varningur er seldur í tengslum við myndina en bara við það að skrifa þetta blogg hef ég fundið fullt af einhverjum leikföngum sem eru tengd myndinni. Áhugasamir geta farið á síðuna Vefverslun Bing.com.
Soundtrack myndarinnar er ekki af verri endanum en Jón Þór Birgisson betur þekktur sem Jónsi í Sigurrós samdi lagið Sticks and Stones fyrir myndina. Endilega horfið á myndina ef þið hafið gaman af teiknimyndum á borð við Shrek,Toy Story o.fl. þið verðið ekki fyrir vonbrigðum.