Sunday, April 3, 2011

The Dark Knight

Bræður mínir keyptu þessa ágætu mynd á föstudaginn og eftir svekkjandi tap gegn Kvennó í Gettu Betur þá hafði ég ekkert betra að gera en að horfa með. Þess má til gamans geta án alls biturleika að Kvennó fékk rétt stig fyrir að svara Akranes við spurningunni um hvaða sveitarfélag sé fremst í stafrófinu, það kemur hins vegar á daginn að til er sveitarfélag sem ber heitið Akrahreppur! Jæja hvað með það. Ég man vel eftir því þegar The Dark Knight kom í bíó sumarið 2008. Hún fór beint á toppinn yfir 250 bestu myndir á Imdb og allir voru á einu máli um það að þetta væri besta mynd sem þeir hefðu séð. Ég var frekar seinn til að fara á hana í bíó svo ég var búinn að heyra þvílíkt mikið um ágæti hennar. Fráfall leikarans Heath Ledger jók einnig umfjöllun um myndina en hann fór með hlutverk Jókersins. Mér fannst myndin mjög góð en hún er aldrei besta mynd í heiminum, enda er hún nú í 10 sæti á imdb með 8.8 í einkunn. The Dark Knight er seinni mynd Christopher Nolan um Leðurblökumanninn en sú fyrri heitir Batman Begins. Christian Bale leikur Batman í þeim báðum og að mínu mati eru þetta bestu batman myndirnar. Myndin þar sem Batman er leikinn af George Clooney og Arnold Schwarzenegger er Mr.Freeze er mögulega versta mynd sem ég hef séð. The Dark Knight fjallar um Bruce Wayne og ævintýri hans sem Batman í Gotham borg. Að þessu sinni er mikill uppgangur í borginni vegna saksóknarans Harvey Dent. Harvey reynir sem best hann getur að uppræta spillingu meðal lögreglunnar og koma mafíuforingjunum á bakvið lás og slá. Á sama tíma býðst Jókerinn til að losa mafíuna við Leðurblökumanninn. Mafían samþykkir og allt fer í háa loft í Gotham borg þar sem hinn sturlaði Jóker er aðal illmennið.
Heath Ledger leikur Jókerinn en einhvers staðar heyrði ég að Ledger hefði lokað sig af einn í einhverjum sumarbústað og æft sig fyrir hlutverkið og verið ja hálf geðveikur. Sú vinna var vel þess virði því hann er hreint stórkostlegur í myndinni. Það gerðist svo þann 22. janúar 2010 að Ledger lést sökum pilluáts og er það mikill missir fyrir kvikmyndaaðdáendur hans. Ledger fékk óskarinn sem besti aukaleikari fyrir leik sinn í myndinni. Þó svo að hann fari á kostum í myndinni þá eru aðrir góðir leikarar í henni einnig og ber þar helst að nefna Christian Bale, Gary Oldman og Morgan Freeman. Ég hef aðeins eitt að setja út á leik Christian sem Batman og það er röddin hans. Þegar hann leikur Bruce Wayne er allt í goodie en svo þegar hann setur á sig grímuna þá er eins og hann hafi reykt einhverja 50 sígarettupakka. Kannski á þetta að vera eitthvað hart eða svoleiðis en á mig virkar þetta virkilega kjánalegt. Það er líka eins og hann geti ekki hreyft munninn á sér þegar hann er með grímuna.
Christopher Nolan leikstýrði, framleiddi og skrifaði myndina. Helst ber að nefna að kostnaður við myndina var 185 milljónir bandaríkjadala en myndin sló svoleiðis rækilega í gegn á heimsvísu að hún hefur tekið inn yfir 1000 milljónir dollara. Tæknibrellurnar í myndinni heilluðu mig og má þar nefna græjur Batmans og andlitið á Two Face. Skemmtilegt er að bera saman The Batcycle úr Batman(1966) og The Batpod.
Hans Zimmer sá um tónlistina í myndinni en hún hefur hlotið fjöldann allan af viðurkenningum, og vann óskarinn fyrir Sound editing. Á næsta ári kemur út myndin The Dark Knight Rises og er ég viss um að allir Batman aðdáendur bíði spenntir eftir henni.
 
Videoið fyrir neðan sýnir ansi vel hvað ég á við með asnalegri rödd Batman og hvernig Christian Bale getur ekki hreyft á sér munninn með grímuna á sér!

1 comment:

  1. Flott færsla. 8 stig.

    Varðandi raddbeitinguna þegar hann er kominn í Batman-búninginn þá held ég að það hafi verið Michael Keaton sem byrjaði á þessu í Batman frá 1989. Það er a.m.k. margt svipað.

    ReplyDelete